148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður sagði er ekki sjálfsögð sjálfbærni að greiða niður skuldir. Það var þetta aðgengi. Við verðum að koma með þá skýringu að það er að öllu jöfnu sjálfbærni að greiða niður skuldir að vissu marki til að loka t.d. ekki mörkuðum.

Ástæðan fyrir því að ég segi einmitt að þetta atriði sé ekki uppfyllt samkvæmt lögum um opinber fjármál, ég er mjög sáttur við rammann þar, er að í fjármálastefnunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál.“

Ég er að segja að það sé ekki satt og þá væri óheiðarlegt af þinginu að stimpla það og segja: Jú, víst uppfyllir hún þessi grunngildi. Hún gerir það ekki. Það vantar greinargerðina og útskýringarnar á því hvernig fjármálastefnan uppfyllir grunngildin. Þá get ég ekki séð að Alþingi ætti að kvitta undir að Alþingi staðfesti það bara samt — þótt svo sé ekki.