148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur andsvarið og svo ég komi að spurningunni í fyrra andsvari varðandi samráðsnefndina um opinber fjármál þá er sýn mín sem sveitarstjórnarmanneskju á það að það hafi gengið býsna vel. Nú leyfi ég mér að tala um að við hjá sveitarfélögum höfum talað um að það væri tímabært að ríkisvaldið myndi setja sér sambærilegar reglur og það eru í fjármálareglunum. En samráðsvettvangurinn er af hinu góða. Samstarfið hefur gengið vel, en ég ítreka að ég held að það þurfi að þroska það enn frekar og það kynni að ná til þess að gera breytingar á sveitarstjórnarlögunum.

Varðandi þjóðarsjóðinn þá deili ég ekki þeim áhyggjum hv. þingmanns um að þær hugmyndir séu algjörlega ómótaðar og ómarkvissar og eigi þar af leiðandi ekki heima í svo mikilvægu plaggi sem fjármálastefnan er. Ég held að vegna þess hversu mikilvægar þær eru þá eigi þær einmitt heima í plagginu um fjármálastefnuna. En ég get alveg tekið undir það, auðvitað þarf að ræða þessa hugmynd mun betur. Það er ekkert búið að útfæra hugmyndina. En hugmynd um einhvers konar varúðarsjóð, þjóðarsjóð, held ég að sé mjög mikilvæg og býsna mikilvægt að (Forseti hringir.) tekið sé á því í eins mikilvægu plaggi og fjármálastefnan er.