148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[20:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég heyri að við erum á sömu línu hvað varðar hina mikilvægu varfærni í þessum málum og því sem fram undan er. Það er gott að heyra það frá honum. Þá höfum við grunngildin, sem mér finnast hins vegar ekki koma nægilega skýrt fram í þessari stefnu. Við sjáum t.d. að árið 2017 var hagvöxturinn um 6% og 2018 er hann kominn niður í 2,9%.

Við þurfum að hafa gott teymi sem fer nákvæmlega í saumana á þessu. Komið hefur fram að margir telja þessa spá vera of bjartsýna. Þá má nefna sem dæmi að í Noregi starfa yfir 100 manns við að vinna svokallað þjóðhagsmódel. Hér var stofnun sem hafði það að markmiði á sínum tíma, en hún var lögð niður. Það eru slíkir þættir (Forseti hringir.) sem vissulega mætti betur fara í í þessari stefnu hvað þetta varðar. En það er þó ánægjulegt að heyra frá formanni nefndarinnar að hann er á þeirri línu að gera þetta varfærnislega, sem er vissulega mjög mikilvægt.