148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjármálaráð tók einmitt undir það eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir benti á, það fagnaði þessari auknu skilgreiningu og túlkun á grunngildum, sem hafði einmitt verið gagnrýnd í fyrri fjármálastefnu. Það er ekki nema eðlilegt. Þar er hægt að taka þar inn, miðað við þá stefnu og aðstæður sem við erum að fara í, að við ætlum að passa að fjallað sé líka um þennan hluta, kannski ekki beinan efnahagshluta heldur ferðaþjónustuna, í skilgreiningu okkar á sjálfbærni. Ef stjórnvöld hafa dálítið lausan tauminn í að geta skilgreint grunngildin á nákvæmari hátt eða meira en gert er ráð fyrir í lögum um opinber fjármál, þá geta þau sett sér meiri skorður til þess að sníða sig að vissu leyti að rökstuðningnum fyrir stefnunni sem þau setja. En þegar sá hringur er kominn, bæði skilgreiningin, stefnan og rökstuðningurinn, er hægt að gagnrýna hvort túlkunin eða skilgreiningin sé kannski of víð eða illa mælanleg. En það er ekki hægt nema að rökstuðningurinn loki hringnum.

Við áttum þetta samtal fyrr í fyrstu ræðu minni varðandi það að fjármálaráð segir að æskilegt sé að grunngildin fylgi þarna með. Ég túlka það sem svo að það skuli gera, það skal, því að það segir í lögunum. Ég túlka það bara sem ákveðið stofnanamál hjá fjármálaráði, orðið „æskilegt“ var ansi oft notað í umsögn þess. Þegar ég fer í orðabókarskilgreininguna á því (Forseti hringir.) eru það bara lögin sem segja til um hvað það orð þýðir. Maður lendir stundum í því. (Forseti hringir.) Það er dálítið erfitt að lesa stofnanatexta stundum og maður þarf að lesa á milli línanna.