148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Já, það gengur vissulega ágætlega að afla ríkissjóði tekna en það er ekki það sama og hagstjórn. Fé streymir inn af öllum vígstöðvum og það er það sem við höfum séð, ekki bara í þessari uppsveiflu heldur í þeirri síðustu og þarsíðustu líka, að það er ekkert sem skilar ríkissjóði meiri ávinningi en einmitt þegar vinnumarkaðurinn fer aðeins fram úr sér, launahækkanir verða aðeins of miklar, einkaneyslan rýkur upp og blessunarlega er núna, frábrugðið fyrri uppsveiflum, mikill vöxtur í nýrri útflutningsatvinnugrein. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Það er gríðarlega gott hversu miklum búhnykk ferðaþjónustan hefur skilað okkur en hún er takmörkuð auðlind líkt og aðrar auðlindir okkar. Við erum enn þá í þeirri stöðu að um 90% af útflutningstekjum okkar koma frá auðlindageiranum. Við erum ekki að efla þann alþjóðageira sem við tölum alltaf um að sé svo mikilvægt fyrir okkur að efla. Það er alltaf sama grunnvandamálið, efnahagsstöðugleikinn er ekki fyrir hendi.

Við getum aukið stuðning við rannsóknir og þróun, við getum aukið framlög til mennta, en það þarf að skapa störfin í þessum greinum og þau verða ekki til öðruvísi en að þessi fyrirtæki hafi stöðugleika til að starfa. Þann stöðugleika hafa þau ekki fundið á undanförnum árum þrátt fyrir allt það góðæri sem hér hefur ríkt. Það er nefnilega ekki hagstjórn þegar ríkið vex. Það er einfaldlega hin endurtekna saga að íslenska hagkerfið er gríðarlega sveiflukennt, það vex vissulega mjög hratt þegar það er að vaxa og ríkissjóður nýtur mjög góðs af, en þá einmitt gildir að gæta að í útgjaldastýringunni til að kynda ekki undir þenslunni á sama tíma og Seðlabanki reynir að spyrna við.

Það er alveg rétt að raunvaxtastig hefur lækkað. Það er alveg rétt að gengið hefur styrkst. Það er fyrst og fremst þessi gengisstyrking sem hefur haldið aftur af verðbólgu því að innlend verðbólga er búin að vera meira en næg á undanförnum árum. Gengið er kannski fyrst og fremst að styrkjast af því að við erum með mjög hátt (Forseti hringir.) vaxtastig af því að Seðlabankinn er að reyna að halda aftur af þenslunni hér einn. Enn og aftur nýtur hann ekki stuðnings ríkisfjármálanna.