148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hv. þingmaður telur að skipti máli í hagstjórn ef það er ekki einmitt að ná verðstöðugleikanum. Þegar við rekum þjóðarbúið þannig að við erum með góðan viðskiptajöfnuð myndi ég segja að við værum með vísbendingu um að hagstjórnarmálin væru í ágætislagi, að vextir væru á niðurleið sem og raunvaxtastigið. Þegar við greiðum upp langtímaskuldbindingar ríkissjóðs, eins og við höfum gert, og afnemum ríkisábyrgð lífeyrisskuldbindinga segi ég: Það er góð hagstjórn. Þegar hrein erlend staða þjóðarbúsins verður sú besta sem hún hefur orðið í sögunni segi ég: Við erum að gera eitthvað rétt í hagstjórninni. Þegar lánshæfi ríkisins hækkar nánast ársfjórðungslega erum við að gera eitthvað rétt í hagstjórn o.s.frv.

Þegar við greiðum upp skuldir eins og við höfum gert jafnt og þétt erum við að ná árangri í hagstjórn.

En þá bendir hv. þingmaður á að stöðugleiki útflutningsgreinanna sé ekki nægjanlegur, sérstaklega þeirra sem hafa heiminn allan að markaði. Það má vissulega til sanns vegar færa að samkeppnisstaða þeirra greina hefur þrengst. En hver er hinum megin við það borð? Það er hið íslenska heimili sem nýtur góðs af því sem er að gerast og þrengir að útflutningsgreinunum. Stóra spurningin er: Hvar vinnum við jafnvægið í vexti þeirra útflutningsgreina sem þrengja að hinum? Nánast öll styrking íslensku krónunnar er vegna vaxtar ferðaþjónustunnar. Þar er ekki auðvelt fyrir um að spá hvar hið nýja jafnvægi verður. Við sjáum enn, þrátt fyrir mikla styrkingu krónunnar, vöxt í ferðaþjónustunni, auknar komur ferðamanna.

Ég ætla að ljúka máli mínu á að tala um ríkið og hvort það er að vaxa. Ríkið vex nefnilega ekkert mikið, mælt á mælikvarða landsframleiðslunnar, sem hlutfall af henni. Ríkið er að verða miklu sterkara, stæltara, þjóðarskrokkurinn miklu öflugri til þess að bera skuldir og skuldbindingar og útgjöld. En ríkið (Forseti hringir.) er ekkert að stækka mikið hlutfallslega í hagkerfinu.