148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:02]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að ekki sé langt í hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Seðlabankinn hefur haft heimild til að beita innflæðishöftum, binda erlent fjármagn á vaxtalausum reikningum samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um gjaldeyrismál. Sú heimild var færð í lög í júní 2016 og var talin nauðsynleg í aðdraganda losunar almennra fjármagnshafta. Í greinargerð með frumvarpinu var bent á að innstreymi vegna beinnar erlendrar fjárfestingar fylgdu margir kostir og um leið takmörkuð áhætta, enda byggðist hún gjarnan á langtímaviðskiptasambandi þar sem til viðbótar við þá fjármögnun sem innstreymið felur í sér fylgir miðlun á þekkingu og tækni, líkt og sagði í greinargerð. Hins vegar felur spákaupmennska í sér ákveðnar hættur þar sem drifkrafturinn er skammtímaábati vegna vaxtamunar á milli landa.

Við Íslendingar brenndum okkur illa á vaxtamunarviðskiptum á árunum fyrir fall fjármálakerfisins. Heimild Seðlabankans til að tempra innflæði erlends fjármagns miðaði ekki síst við að koma í veg fyrir vaxtamunarviðskipti og draga þar með úr áhættu og koma í veg fyrir þjóðhagslegt og fjárhagslegt ójafnvægi. Frá því að innflæðishöftin voru innleidd sumarið 2016 hefur engin breyting verið gerð á beitingu þeirra. Binda þarf 40% af erlendu fjármagni á vaxtalausum reikningi og gildir það um öll skuldabréf og innlán óháð útgefanda, ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum og óháð tímalengd.

Enginn greinarmunur er gerður á því hvort um er að ræða vaxtamunarviðskipti eða langtímafjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Í því sambandi skal tekið fram að ég er sammála þeim mörgu sem fært hafa fyrir því sterk rök að nauðsynlegt sé að vængstýfa vaxtamunarviðskipti. En einnig er vert að benda á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn — auðvitað vitum við sem hér erum að sérfræðingar hans eru nú ekki alveg óskeikulir — er hins vegar afdráttarlaus í andstöðu sinni við innflæðishöft á Íslandi.

Í skýrslu sem kom út síðastliðið sumar var því haldið fram að engin ástæða væri fyrir sérstökum höftum á innflæði fjármagns til Íslands. Innflæðishöftin eiga ekki að vera varanleg að mati AGS enda eru þau eingöngu réttlætanleg sem neyðarúrræði. Höft eiga aldrei að leika lykilhlutverk í innlendri hagstjórn.

Ég held því fram að afleiðingar innflæðishaftanna séu alvarlegrar. Þær valda því að vaxtastig á Íslandi er óeðlilega hátt, fyrirtæki og heimili greiða sérstakt álag vegna haftanna og höftin hindra samkeppni á fjármálamarkaði. Í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar síðastliðnum sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, með leyfi forseta:

„Ef þessi höft yrðu afnumin held ég að við myndum sjá vexti lækka tiltölulega hratt.“

Höftin draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, eru skaðleg í íslenskum hagsmunum og er hlutfall erlendra fjárfestinga á íslenskum verðbréfamarkaði þar af leiðandi mjög lágt í alþjóðlegum samanburði. Það er eitt að eiga vopn og skotfæri í vopnabúrinu en annað að nota þau án þess að ógn steðji að. Það sama á við um heimild Seðlabanka Íslands að beita innflæðishöftum.

Afnám haftanna á langtímafjárfestingar mun hafa jákvæð áhrif. Álag á fyrirtækjaskuldabréf mun lækka og samkeppni á fjármálamarkaði mun aukast. Heimilum stæði til boða hagstæðari nafn- og raunvaxtakjör og ég er nokkuð klár á því að óverðtryggð lán myndu festast frekar í sessi. Það er því eftir miklu að slægjast.

Að þessu sögðu vil ég spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Telur ráðherrann að tilefni sé til að aflétta þeim höftum sem enn eru í gildi á fjárfestingar útlendinga í innlendum verðbréfum og innlánum? Er skynsamlegt af Alþingi að endurskoða bráðabirgðaákvæði í gjaldeyrislögum sem sett voru sumarið 2016? Tekur ráðherrann undir þá gagnrýni að innflæðishöftin hafi leitt til hærri vaxtakostnaðar fyrir atvinnulífið og einstaklinga en annars? Þá væri í raun sérstakt vaxtaálag (Forseti hringir.) á fyrirtæki og heimili og dregur úr samkeppnishæfi íslensks efnahagslífs.