148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:06]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég skal opinbera að ég er sjálfur ekki mikill aðdáandi heildrænnar endurskoðunar eða stefnumótunar. Oft held ég að það sé t.d. betra fyrir stöðugleika löggjafar að gera minni og afmarkaðri breytingar. Í fyrsta lagi er líklegra að þær nái í gegn og í öðru lagi þurfum við ekki að raska öllu til að breyta einhverju einu. Ef við færum í heildstæða endurskoðun á öllu því sem beðið er um væri það t.d. ekki hægt öðruvísi en að breyta stjórnarskrá. Það væri ekki hægt að breyta þessum lögum öðruvísi en að breyta stjórnarskrá í leiðinni, vegna þess að til þess að breyta aldursmörkum í kosningum til Alþingis þarf að breyta stjórnarskrá. Eins og við vitum er það flóknara verk en að breyta almennum lögum.

Þannig að það er kannski dálítið áhættusamt, myndi ég segja, ef menn vilja ná fram einhverjum breytingum að þurfa þá alltaf að taka með í reikninginn að nauðsynlegt sé að breyta stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í atriði sem varðar stjórnarskrá. Er það að hans mati ólíðandi misræmi að kjörgengi til forseta Íslands og aldurstakmarkið til að kjósa sér forseta fari ekki saman? Það er annars vegar 35 ára og svo 18. Myndi hann vilja leiðrétta það misræmi og þá í hvora áttina? Hvort það ætti að vera 18 yfir allt eða 35 yfir allt í forsetakosningum?