148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:06]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á þessu nýstárlega og nýtilkomna málefni sem smálánastarfsemi óneitanlega er. Okurlánarar hafa fylgt mannskepnunni ansi lengi. Þeir nýta sér bágindi fólks sem hefur lítið á milli handanna eða hefur ánetjast einhverri fíkn og leiðst út í að fjármagna hana með lánum. Þetta er ekki fólkið sem fer með sorgarsögur sínar í fjölmiðla þegar það er komið í stórskuld. Auglýsingarnar hljóða svona: Þú færð smálán í einum grænum.

Þetta er okurstarfsemi. Ég er hérna með úrklippu úr blaði frá 1985 um okurlánara, eins og þessi fyrirtæki líkjast, sem var hnepptur í gæsluvarðhald. Ég spyr: Eru borgarar landsins ekki lengur varðir eins og fyrir 30 árum? Eru þeir ekki lengur varðir fyrir okurlánastarfsemi?

Ég tel sjálfsagt að starfsemi smálánafyrirtækja verði gerð leyfisskyld og sett þannig undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Mér finnst það eðlilegt. Ég er einnig hissa og það er sláandi að heyra eins og kom fram í umræðunni hversu stór hluti skulda heimilanna er vegna smálána, hvað það hefur vaxið gífurlega mikið. Vandinn vex kannski án þess að við gerum okkur fyllilega grein fyrir því hversu stór hann er. Þess vegna tel ég brýnt að taka mjög fljótt á þessu máli.

Starfsemi þessara fyrirtækja mætti með réttu kalla sjóræningjastarfsemi. Við verðum að tryggja neytendum þá réttarvernd sem þeir nauðsynlega þurfa af hálfu hins opinbera og ég vil bæta við: Neytendastofa hefur lagt sektir á nokkur slík fyrirtæki en ekki liggur fyrir hvort þær hafa verið greiddar. Ég spyr: Hafa þessar stjórnvaldssektir verið greiddar? Hafa þær verið innheimtar? (Forseti hringir.) Er vitað hvert umfang starfsemi þessara fyrirtækja er í fjárhæðum?