148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Eins og aðrir vil ég þakka fyrir þessa umræðu, hún er brýn og mjög mikilvæg fyrir okkur sem hér erum en ekki síður fyrir ferðaþjónustuna og landsbyggðina. Það skiptir miklu máli að við erum búin að viðurkenna ákveðnar staðreyndir. Það er búið að greina allt í drasl, má eiginlega segja, og það þarf að dreifa ferðamönnum víðar um landið. Það þarf að fara að drífa í því að byggja upp þannig umhverfi af hálfu hins opinbera að það verði aðlaðandi. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, með því mikilvægasta í þessu núna er að ýta líka undir vöruþróun og nýsköpun, nýta tækniþróunina, til að við getum farið að dreifa ferðamönnum meira um landið, ekki síst í ljósi náttúruverndarsjónarmiða, en líka byggðasjónarmiða.

Ég sé að einna helst er einblínt á Akureyri og Egilsstaði. Það er fínt og ég tek undir þau sjónarmið sem þar búa að baki og er eindreginn stuðningsmaður þess að það verði gert.

Ég vil hins vegar draga Vestfirði hingað inn. Við vitum að flugvallarskilyrði þar eru slæm, ekki síst á Ísafirði. Ég hvet ráðherra til að eiga samtal við samgönguráðherra til að fara strax í skoðun á nýju flugvallarstæði fyrir Ísfirðinga og aðra Vestfirðinga. Það þarf að skoða og tryggja betri flugsamgöngur við Vestfirði og fyrir Vestfirði en nú eru í boði. Það getur verið liður í því líka á endanum að dreifa ferðamönnum.

Áfram með samgöngur á Vestfjörðum. Það er þyngra en tárum taki að sjá enn og aftur samgöngur þar ekki kláraðar, samanber Teigsskóg sem myndi ýta undir ferðaþjónustu, m.a. á Vestfjörðum. Þetta er endalaust að þvælast í kerfinu. Það sama er núna með mikilvægi Dýrafjarðarganga, þau verða kláruð árið 2020 en þau koma ekki almennilega að gagni fyrr en vegurinn yfir Dynjandisheiði verður kláraður. Það á ekki að byrja á honum fyrr en árið 2020 þannig að við verðum að fara að skoða þetta svolítið í stærra samhengi og drífa okkur í verkið. Það er búið að greina þetta í drasl, eins og ég sagði áðan, og við vitum alveg hvað þarf að gera. Nú þarf hæstv. ferðamálaráðherra að sýna hvað (Forseti hringir.) í henni býr og drífa sig í þessi verk. Ég veit að hún hefur allan viljann, kjarkinn og þorið til að gera það. Hún hefur stuðning hér á þingi til að fara í verkin.