148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[17:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir vil ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Hún er skemmtileg, það er alltaf skemmtilegt að tala um það hvernig við getum dreift ferðamönnum, hvernig við getum eflt allt landið þegar kemur að skemmtilegri atvinnugrein eins og ferðaþjónustunni. Ekkert af þessu gerum við samt ef við erum ekki með innviðina í lagi. Ef innviðirnir eru ekki til staðar gerum við þetta ekki, það er alveg ljóst. Þegar maður fer frá Keflavíkurflugvelli, eins og þetta er í dag, eru miklar líkur á því að maður stoppi og festist í Hafnarfirði. Það er margt að skoða í Hafnarfirði sem er fallegur bær en þegar umferðin stoppar þar vegna þess að Reykjanesbrautin er ekki tvöföld og ekki klár og menn lenda í umferðarteppum byrja menn á að festast þar. Það þarf ekki að fara lengra.

Ef við horfum á fjármálaáætlunina, fjárlög ríkisstjórnarinnar og stefnuna sem ríkisstjórnin hefur eru það vitanlega vonbrigði í samhengi við það sem við erum að ræða hér, þ.e. hvernig við ætlum að dreifa ferðamönnunum. Innviðauppbyggingin er af mjög skornum skammti í fjármálaáætluninni sem lögð hefur verið fram. Við sjáum að þörfin til samgangna er aðeins brotabrot af því sem talað hefur verið um. Ég skil ekki alveg hvernig á að fara í þá vegferð að fjölga ferðamönnum ef við erum ekki með fjármuni til að efla innviðina.

Það er búið að dreifa hér byggðaáætlun. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort áherslupunktar í byggðaáætlun sem miða að því að efla ferðaþjónustu um allt land séu að fullu fjármagnaðir. Er búið að fjármagna byggðaáætlun þegar kemur að því að efla ferðamannastaði? Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að þessu.

Einnig er alveg kristaltært, það hefur komið fram, að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um hvernig gjaldtaka af ferðamönnum á að vera. Þar af leiðandi missum við mögulega af fjármunum sem hefðu getað farið í nauðsynlega uppbyggingu, t.d. á sjúkrahúsþjónustu, löggæslu, samgöngum, stígum og öðru slíku sem þarf til að taka á móti ferðamönnum ef við ætlum að fjölga þeim mikið.

Svo langar mig að nefna það hér, herra forseti, að fyrir þinginu liggur tillaga um að Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki verði gerður að varaflugvelli. Það er til þess að styrkja og dreifa farþegum vegna þess að það mun styrkja Akureyri, Reykjavík, Keflavík og Egilsstaði verði farið í að gera þennan flugvöll sómasamlegan.

Ég skora á hæstv. ráðherra að tryggja það fjármagn sem er nauðsynlegt (Forseti hringir.) til að geta gert þetta að veruleika sem við tölum hér um.