148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

viðbrögð við fjölgun ferðamanna.

305. mál
[17:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka öllum hlutaðeigandi fyrir þessa ágætu umræðu. Aðeins hefur verið komið inn á mikilvægar öryggisáætlanir fyrirtækja. Þær koma ekki í staðinn fyrir neitt af því sem við höfum talað um. Þær eru bara hluti af því öryggisneti sem ferðaþjónustan þarf að hafa og er ekki sjálfsagt alls staðar og verður auðvitað að vinnast áfram. Annað sem hefur líka komið fram er aðgangsstýring og þolmörk og annað slíkt. Þá vil ég bara minna á þessa skýrslu sem nýbúið er að leggja fram — beiðni um hana kom héðan frá þinginu — sem fjallar nákvæmlega um þau mál. Við erum hér að ræða um praktískari hluti, landvörslu, leiðsögn, löggæslu og björgunarstörf. Við erum þá sammála um aukningu í landvörslu.

Varðandi leiðsögn og löggildingu erum við kannski eitthvað ósammála, en sá umþóttunartími sem var nefndur hér á undan mér, af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, þ.e. sólarlagsákvæði, er þekktur. Þetta var til dæmis gert þegar framhaldsskólakennarar fengu kennsluréttindi og þurftu að fara í háskólanám. Þá var þetta gert nákvæmlega þannig og reyndist mjög vel. Ég sé enga mótsögn í því. Ég hnykki bara á því að þetta er fag og skal löggildast.

Varðandi löggæslu þá er það einfaldlega svo að þetta er þekkt í mörgum löndum. Það er ekkert nýtt að löggæslumenn séu landverðir og landverðir séu löggæslumenn. Þetta er bara sérstakur hópur innan lögreglunnar og það hefur ekkert með styrkingu lögreglunnar að gera að öðru leyti. Ég legg áherslu á að reynslan sýnir að sá litli hópur sem sinnir þessu er of fámennur og ekki nógu kunnáttusamur í landvörslu.

Varðandi björgunarstörfin þá verð ég að minna á að þetta snýst almennt um álag á björgunarsveitir, ekki bara vegna ferðaþjónustu. Þetta er veðurtengt og tengt ferðum Íslendinga sjálfra. Ég veit það vegna tengsla minna inn í þessar sveitir að mikið er kvartað (Forseti hringir.) yfir gríðarlegu álagi á ákveðnar sveitir og atvinnuveitendur eða -rekendur sem það fólk vinnur hjá. Þannig að ég held að þetta sé miklu flóknara (Forseti hringir.) málefni en svo að við eigum bara að hlusta á forstöðumenn þessara björgunarsveita með það að ákvarða hvort þessi umræða fari í gang eða ekki.