148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

eftirfylgni við þingsályktun nr. 22/146.

267. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér finnst þau pínu loðin, ég verð að játa það. Það kemur þó fram að búið er að fá fulltrúa úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að vinna að þessu verkefni.

Ráðherra talaði um að kynna áform á næstu mánuðum. Þá spyr ég í framhaldinu hvort eitthvert samráð hafi þegar verið haft, af því þetta er í nóvember og nú er kominn apríl, við Hörgársveit í þeirri vinnu og hvernig það eigi að fara fram. Eins og ég sagði áðan þá liggur fyrir að þetta litla sveitarfélag getur ekki staðið undir slíkum rekstri eða áframhaldandi uppbyggingu nema með aðkomu ríkisins sem, eins og hæstv. ráðherra benti á, er stærsti eigandinn að þessu svæði og þessu húsi. Ég spyr hvort þar sé einhver fulltrúi.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra, varla er hægt að tala um Jónas án þess að minnast á Dag íslenskrar tungu. Ég var íslenskukennari í grunnskóla og sá dagur var einn af betri dögunum, því að þann dag er skólastarf mjög víða brotið upp og minning þjóðskáldsins heiðruð á marga vegu. Það er kannski það sem hann er meira þekktur fyrir í dag en fyrir náttúrutenginguna, en hann var auðvitað mjög merkur náttúrufræðingur. En það þarf að gera þetta að alvöruvinnustofu og setri sem sinnir þeirri þjónustu sem þarf. Við erum með Snorrastofu, við erum með Skriðuklaustur, Gljúfrastein, Þórbergssetur. Við höfum gert mjög margt gott í þessum efnum. Ég tel að Jónas sé næstur og við megum ekki draga það allt of lengi.