148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum um bann við umskurði drengja.

413. mál
[18:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég tel málið mikilvægt því að það sýnir mjög vel þann mikilvæga grundvallarrétt okkar þingmanna að leggja fram þingmál óháð öllu öðru. Ég tók líka þátt í umræðunni og hef viðurkennt að mér finnst að fara þurfi varlega í þessu máli. Ég tel að það þurfi jafnvel að þroskast meira, fá meiri umræðu og að farið verði gaumgæfilega yfir það af hálfu fræðimanna, efnt til málþings o.s.frv. Ég tek undir sjónarmið hæstv. ráðherra, annars vegar er um að ræða réttindi barnsins og hins vegar önnur sjónarmið sem helstu erlendu athugasemdirnar hafa snúist um.

Ég vil koma því á framfæri að við megum ekki láta viðskiptahagsmuni eina ráða því hver stefna okkar er í ýmsum málum hér heima. Sem dæmi vil ég nefna mjög einarða afstöðu þáverandi utanríkisráðherra gagnvart viðskiptabanni á Rússa vegna málefna Úkraínu. Ég tel það mikilvægt þrátt fyrir mikla hagsmuni sem þar voru undir, m.a. á sviði sjávarútvegs. Það er stóra málið að þar vorum við meðal annars að verja landhelgi okkar (Forseti hringir.) og fleira. Þá verðum við að geta sett fram sjálfstæða óháða stefnu, tekið afstöðu hér algjörlega óháð því hverjir viðskiptahagsmunirnir (Forseti hringir.) eru. Við þurfum að líta til réttinda okkar sem þingmanna og síðan samfélagsins alls í tengslum við hvert og eitt mál.