148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð fyrri þingmanna í ræðustól um að þetta renni stoðum undir það að Alþingi sé sú stimpilstofnun sem hún er nefnd hérna. Þegar við fáum í hausinn svona mörg mál í einu ber þetta þá ásýnd að við séum bara hérna til að afgreiða málin út úr 1. umr. Eins og áður hefur verið bent á gerir það ráðherrana einmitt dálítið stikkfrí, þeir koma í 1. umr. til að kynna málin, til að svara jafnvel fyrirspurnum sem koma í svörum þar á eftir, en þegar málið er búið í 1. umr. er einhvern veginn nefndin og þingið búið að taka við. Þá eru ráðherrarnir farnir.

Ég vek t.d. athygli á 12. málinu hérna, dómstólum, þ.e. Endurupptökudómi. Þetta er mál sem ég held að þurfi þó nokkuð mikla umræðu með tilliti til landsréttarmálsins sem var hérna í lok síðasta kjörtímabils. Það er ekki nokkuð sem við erum að fara að hleypa neitt rosalega auðveldlega í gegnum þingið (Forseti hringir.) út af þeim vandamálum sem við lentum í varðandi Landsrétt, að það komi upp nýtt dómstig, Endurupptökudómur, og við förum ekki mjög nákvæmlega yfir það frumvarp. Þá er 1. umr. líka gríðarlega mikilvæg.