148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á að það voru þingmenn Viðreisnar í ríkisstjórninni síðustu sem komu með mál hingað inn í þingið, annað en aðrir. Gott og vel. En það sem ég vil hins vegar draga fram, burt séð frá því hverjir eru í ríkisstjórn hverju sinni, er að við verðum að horfa á þessa dagskrá. Hún er ekki þinginu öllu til sóma. Ég vil beina því sérstaklega til hæstv. forseta, ekki síst vegna þess að nú er klukkan hálfþrjú. Gefum okkur það að þingfundur verði til klukkan tólf og það eru 18 mál á dagskrá. Ef hver flokkur talar í öllum málum höfum við að meðaltali tæpar fjórar mínútur fyrir hvert mál. Við erum að tala um dómstólalög, við erum að tala um fiskeldi, við erum að tala um skaðabótalögin, fjármálafyrirtæki. Er verið að verja málfrelsið hér, okkar þingmanna, með þessu? Ég tel svo ekki vera. Ég tel mjög mikilvægt, ekki síst vegna þess að ríkisstjórnarsáttmálinn er bara, hvað, ekki fimm mánaða gamall, að við förum nú að virða það sem þar stendur og reyna að ýta undir betri vinnubrögð á þingi. (Forseti hringir.) Þetta ber ekki vott um að vinnubrögðin á þinginu séu að batna og (Forseti hringir.) ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að taka þessar vinsamlegu (Forseti hringir.) ábendingar okkar hérna í stjórnarandstöðunni og fara að lesa þetta yfir.