148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dagskrá fundarins.

[14:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. Jón Gunnarsson um afköst síðustu ríkisstjórnar. En þó að sú ríkisstjórn hafi haft sex vikum skemmri tíma á sama þingvetri kom hún umtalsvert meiru til leiðar á þeim stutta tíma en þessi ríkisstjórn hefur gert. Það er raunar alveg sérstakt afrek hversu dáðalítil þessi ríkisstjórn hefur verið til verka.

Þetta snýr að því að við sýnum þinginu tilhlýðilega virðingu. Mörg af þeim málum sem ríkisstjórnin er að flytja eru endurflutt mál frá síðasta þingi. Þau hafa meira og minna legið tilbúin í ráðuneytunum í allan vetur, frá síðasta vetri. (Gripið fram í: Fullkynnt?) — Ja, þau hafa ekki komist til umræðu. En það hefði verið hægur vandi að henda þeim hingað inn í þingið í janúar og febrúar. Meðan þingið kvartaði sífellt undan því að hafa ekkert að gera.

En nei, beðið er með það fram að páskum og svo er öllu hrúgað inn og svo á að afgreiða málin á einhverjum dögum sem eru teljandi á fingrum annarrar handar, liggur við, sem við höfum úr að moða fram að sveitarstjórnarkosningum. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Þetta er ekkert skipulag. Það er það sem við erum að gera athugasemd við hér.