148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

fjármálafyrirtæki.

422. mál
[15:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Ég held að það sé nú engar líkur á því að fjármálafyrirtækin fari að draga úr þeim gjöldum, í það minnsta sjálfviljug, sem þau geta innheimt af viðskiptamönnum sínum. Ég hef alla vega ekki orðið var við vilja til þess. Það kann vel að vera að í framtíðinni sjáum við það. Jafnvel þó að hagkvæmni muni aukast þá held ég að freistingin til þess að taka eins mikið af gjöldum og aukagjöldum og hægt er verði til staðar. Því hljótum við að spyrja okkur og kannski er rétt að spyrja ráðherra að því hvort það sé ástæða til þess að fara í gegnum þær heimildir fjármálafyrirtækja sem þau hafa til þess að rukka viðskiptavini sína um hin og þessi gjöld, þetta er orðinn mikill frumskógur gjalda sem er hægt að innheimta.

Að frumvarpinu sjálfu, þá velti ég því aðeins fyrir mér hvort frumvarpið sem slíkt sé fyrst og fremst til þess ætlað að skýra — og ég viðurkenni það alveg við hæstv. ráðherra að ég hef ekki náð að lesa þetta algjörlega í gegn — þær valdheimildir sem ríkið hefur og þá eftirlitsstofnanir þess eða hvort líka sé verið, kannski á sama tíma, að tryggja og auka það öryggi sem einstaklingar, almenningur þarf að búa við þegar fjármálakerfið, ef við orðum það þannig, er jafn stórt, jafn ráðandi og ríkjandi og það er á Íslandi. Ég velti því fyrir mér hvort og þá með hvaða hætti frumvarpið nái að einhverju leyti til lífeyrissjóðanna sem eru einhverjir stærstu leikendur á íslenskum fjármálamarkaði í dag þegar kemur að því að lána, kaupa, selja hlutabréf o.s.frv. Ég hef ekki náð að fara í gegnum það hvort það nær til þeirra fyrirtækja.