148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[19:53]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér er verið að leggja fram og mæla fyrir frumvarpi um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi sem hafa það m.a. að markmiði að tryggja að atvinnugreinin byggist upp og þróist í sátt við umhverfið. Enda hefur það sýnt sig að það er mikilvægt að auka traust og sátt í kringum þessa uppbyggingu til þess að tryggja sjálfbærni.

Það er tvennt sem mig langar að spyrja um í þessu sambandi. Annars vegar verða rekstrarleyfi nú ótímabundin og ég vildi kannski fá frekari skýringar hjá ráðherranum á ótímabundnum leyfunum og svo leyfunum sem eru til 16 ára og hvaða skilyrði fyrirtækin þurfi að uppfylla til þess að halda leyfunum. Getur fyrirtæki sem ekki fullnýtir leyfi haldið rekstrarleyfi eða haldið ákveðnu svæði og annað í því sambandi? Hins vegar vil ég spyrja hvort í frumvarpinu felist einhver breyting á tilhögun eftirlits. Eitt af því sem hefur valdið töluverðri tortryggni er að eftirlitsmenn eru oft á tíðum staðsettir fjarri fyrirtækjunum sem stunda þessa starfsemi og þá er ekki um að ræða, hvað eigum við að segja, ekki endilega daglega umferð en a.m.k. ekki um þetta næreftirlit að ræða sem skiptir oft miklu máli, bara það að vera vakandi fyrir ákveðnum ummerkjum í umhverfinu án þess að það sé verið að gera sérstakar heimsóknir sem kannski kosta hundruð kílómetra í akstri.