148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[20:05]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þetta svar. Ég spurði um laxalúsina vegna þess að á fund atvinnuveganefndar komu um daginn gestir sem voru með nýjar gerðir af kvíum þar sem sjó er dælt að og mynduð hringrás í kvíunum þannig að lúsin nær ekki að þrífast. Ég var því með svolítið kvikindislega spurningu.

Eins gleður mig að heyra þetta með auðlindagjaldið og að hugmyndin sé að það renni til innviða á heimasvæðinu, a.m.k. að hluta til.

Svo var spurning um erfðablöndun og þessar tilraunir, sem gladdi mig líka að heyra, með ófrjóan lax. Ég hef oft velt fyrir mér af hverju sú tilraunastarfsemi sé ekki löngu komin af stað. Sú umræða hefur ekki farið mikið fram. Það gleður mig að heyra að (Forseti hringir.) ráðherra hyggst beita sér fyrir því. Vonandi gengur það vel því að auðvitað má ekki hætta á að villtur lax blandist eldislaxi.