148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

almenningssamgöngur.

[15:29]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp og beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra. Þann 7. maí 2012 var skrifað undir samning milli þáverandi innanríkisráðherra, fjármálaráðherra, vegamálastjóra og bæjarstjóra eða borgarstjóra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem sneri að frestun stórframkvæmda í 10 ár og yfir sama tímabil yrði hér um bil milljarður settur aukalega á hverju ári í aukinn stuðning við almenningssamgöngur.

Markmið þessa samkomulags var, eins og segir þarna, með leyfi forseta:

„Meginmarkmiðið verður að a.m.k. tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu. Árangur af þessu tilraunaverkefni verður metinn í framvindumati á tveggja ára fresti og framlög verða þá endurskoðuð.“

Í 5. gr. samningsins þar sem fjallað er um samningstíma segir, með leyfi forseta:

„Samningur þessi er gerður til 10 ára. Samningurinn tekur gildi 7. maí 2012 og gildir til 7. maí 2022. Samningurinn skal endurskoðaður á tveggja ára fresti … Endurskoðun skal lokið fyrir 11. apríl hverju sinni.“

Síðan segir hér í sérstakri málsgrein, með leyfi forseta:

„Við endurskoðun samningsins 1. apríl 2018 munu samningsaðilar leggja sérstakt og ítarlegt mat á árangur verkefnisins með tilliti til áframhalds að samningstíma loknum og hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á samkomulaginu í ljósi niðurstöðu matsins.“

Nú liggur það fyrir og grunnforsendur sem koma fram í fylgiskjali með samningnum voru þær að á þeim tíma var heildarfjöldi ferða sem farnar voru með almenningssamgöngum 4% á höfuðborgarsvæðinu. Nú liggja ný gögn fyrir og þá kemur í ljós að prósentutalan er nákvæmlega hin sama, 4% heildarferða eru farnar með almenningssamgöngum. Þannig að árangurinn af þessu, ef þetta væri eina breytan, er nákvæmlega enginn.

Þess vegna er ég forvitinn að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvað kom út úr þessari endurskoðun sem lauk núna 1. apríl 2018 sem er stærsta endurskoðunin á samningstímanum.