148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

almenningssamgöngur.

[15:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir. Það væri áhugavert að fá að vita hvort hæstv. ráðherra metur það sem raunverulegan valkost í stöðunni að ríkið segi upp þessum samningi í ljósi þess að árangurinn hefur verið vægast sagt takmarkaður miðað við meginforsendurnar sem menn gáfu sér árið 2012.

Við þekkjum öll þau umferðarvandamál sem blasa við og bara til þess að nefna fylgiskjal með samningnum sem gerður var á sínum tíma þá eru þar taldar upp framkvæmdir, yfirlit yfir stórar framkvæmdir í vegagerð sem frestast. Þar eru framkvæmdir margar hverjar sem myndu hafa veruleg áhrif á umferðarflæði innan borgarinnar í dag. Þannig að valkostirnir sem menn stóðu frammi fyrir fyrir fimm árum síðan og völdu að setja milljarð aukalega í almenningssamgöngur á sama tíma og stórframkvæmdum var frestað eru þeirrar gerðar að það er ábyrgðarhluti að fyrir liggur núna að enginn árangur hefur náðst, enginn. Almenningssamgöngur voru 4% fyrir fimm árum síðan, þær eru 4% af heildarferðafjölda í dag. Álítur samgönguráðherra það raunhæfan kost að hið opinbera segi upp samningi þessum?