148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að áðan er þetta í þriðja sinn sem fjármálaáætlun er lögð fram. Ég hef heyrt þennan söng áður. Ég heyrði hann í fyrsta skiptið, ég heyrði hann í annað skiptið, ég er að heyra hann í þriðja sinn. En staðreyndin er sú að allan þann tíma sem ég er hér að vísa til hefur okkur gengið vel. Okkur er að takast að auka kaupmátt, halda verðbólgu niðri og styrkja stöðu ríkissjóðs með uppgreiðslu skulda, lægri vaxtagreiðslum og eflingu ýmissa samfélagslegra verkefna.

Hér kom hv. þingmaður inn á barnabæturnar svo dæmi sé tekið. Ég og hv. þingmaður erum einfaldlega ósammála um tvennt. Í fyrsta lagi er verið að tryggja áframhaldandi fjármögnun barnabótakerfisins eða sambærilegt umfang barnabótakerfis og við höfum í dag. Ef við hefðum ekki gert það í áætluninni þá hefðu barnabætur átt að lækka verulega út af hærri tekjum og betri eignastöðu inni í framtíðinni.

Hitt erum við líka ósammála um sem er þetta að það á ekki að vera að greiða barnabætur til fólks sem er með í kringum 1 milljón á mánuði. Samfylkingin hefur alltaf talað fyrir því að barnabætur fari út til allra, óháð efnahag og tekjum. Þessu er ég ósammála. Það birtist kannski í barnabótakerfinu eins og það er í dag og í þessari áætlun, að það er einfaldlega rangt að vera með kerfi sem eftir atvikum er farið að taka í þriðja skattþrepi eins og við vorum með á sínum tíma, sérstakan tekjuskatt, hátekjuskatt af fólki, sem á sama tíma er skilgreint í þörf fyrir barnabætur. Þetta er fyrir mér algjörlega óskiljanleg framkvæmd á skattamálum í einu landi. Ég mun beita mér gegn henni.

Ég sé fyrir mér að við breytingar á tekjuskattskerfinu og bótakerfunum munum við geta náð betri árangri með því að láta til dæmis eftir atvikum, ég set alla fyrirvara á endanlega niðurstöðu, að við gætum lækkað einfaldlega skattprósentuna, tekið persónuafsláttinn og bætur eins og þessar sem eiga ekkert erindi til þeirra sem eru með laun í kringum 1 milljón, láta þá fjármuni frekar rata til þeirra sem eru tekju- og eignaminni.

Í áætluninni er hins vegar skýr menntasókn og hv. þingmaður ætti kannski að gera betur grein fyrir því hvernig hann vill (Forseti hringir.) skattleggja millistéttina í landinu til þess að standa undir þeim útgjöldum sem hann kallar eftir að fá (Forseti hringir.) inn í áætlunina.