148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:54]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn að ráðherra spurði mig um skattana. Ég hafði ekki tíma til að fara í það hér áðan. Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að ríkið sé að lækka skatta, ríkið ætlar að afsala sér tekjum upp á 25–30 milljarða. Ég tel það vera ranga pólitík og vonda hagstjórn á þessum tímapunkti að lækka skatta um 25–30 milljarða á meðan verið er að vanrækja þessar grunnstoðir velferðarkerfisins, hvort sem litið er til barnabóta, vaxtabóta o.s.frv. Þar eru fjármunir sem við hefðum úr að spila til að styrkja þá þætti sem ég er að leggja áherslu á.

Mér finnst auðlegðarskattur svo sannarlega koma til greina. Við sjáum það og nýjar tölur frá ráðherranum sjálfum sýna að ríkasta 5% á 45% af eigin fé í landinu. Þetta er hópur sem þolir alveg meiri skattheimtu að mínu mati.

Sömuleiðis þurfum við að skera á þann hnút að geta fengið frekari tekjur frá ferðamönnum.

Mig langar líka aðeins að slá á þá mítu að við vinstri menn viljum aldrei lækka skatta. Hvaða bull er það? Við höfum lækkað tekjuskattinn. Þegar við vorum í ríkisstjórn lækkuðum við tekjuskatt með því að hækka persónuafsláttinn. Við höfum lækkað fjármagnstekjuskatt þegar við vorum í ríkisstjórn því að við settum frítekjumark sem tók skattinn frá nánast öllum, 90% af þeim sem greiddu fjármagnstekjuskattinn sluppu við hann.

Þegar við vorum í ríkisstjórn höfum við innleitt skattfrádrátt fyrirtækja vegna fjárfestinga í hlutabréfum. Þegar við vorum í ríkisstjórn lækkuðum við meira að segja tekjuskatt fyrirtækja úr 18 í 15%. Það er algjör vitleysa að halda því fram aftur og aftur að vinstri menn eða Samfylkingin geti ekki lækkað skatta. En við skulum gera það þegar tímasetningin er rétt. Við eigum ekki að gera það á meðan við erum að fjársvelta grunnstoðir velferðarkerfisins eins og nú er. Þjóðin hefur kallað eftir frekari innviðauppbyggingu. Síðustu kosningar snerust um það, um innviðauppbyggingu.

Það er því með ólíkindum að við skulum enn vera með fjársvelt framhaldsskólakerfið, enn með barnabótakerfi sem er að molna og grotna að innan, enn með vaxtabótakerfi sem er nánast horfið o.s.frv.