148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og get alveg fullvissað hv. þingmann um, sem ég veit að er býsna nákvæmur, að ég fyrirgef honum alveg fullkomlega þessa umræðu með gjöldin og tekjurnar. Vissulega skiptir máli í allri hagstjórn að við vöndum til verka við allar skattbreytingar og svo í hvað peningarnir fara. Það er ekki nóg að auka útgjöldin.

Ég vil þó benda á blaðsíðu 14 þar sem er athyglisvert að sjá að samneysluhlutfallið, þ.e. hlutfall af vergri landsframleiðslu, heldur sér út áætlunartímann, sem er vísbending um ákveðna varfærni, að það sé þó verið að passa upp á að þetta hangi saman við getu þjóðarbúsins um að bæta þjónustu við borgarana.

Ég vil í seinna andsvari koma inn á að skattahækkanir eru líka áformaðar í þessari áætlun og spyrja um hug hv. þingmanns til fyrirhugaðrar gjaldtöku á ferðamenn sem hefur verið lengi í deiglunni, allt of lengi. Og svo kolefnisgjaldið. Þarna er um að ræða skattahækkanir. Ég skil hv. þingmann hvað varðar endurgreiðslu þróunarkostnaðar, hann myndi frekar vilja sjá hærra endurgreiðsluhlutfall á honum en endilega þakið. En hv. þingmaður getur svarað því í seinna andsvari. Fyrst og fremst spyr ég um kolefnisgjaldið og fyrirhugaða gjaldtöku á ferðamenn og svo um þróunarkostnaðinn, hvort hann myndi vilja sjá hærra endurgreiðsluhlutfall.