148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:34]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður vera heldur neikvæður, það er kannski vegna þess að það er komið svo langt fram á kvöldið. En mig langar að ræða aðeins þessi tvö mál sem hv. þingmaður kom inn á. Það er alveg rétt að frumvarp um félagsþjónustu sveitarfélaga og NPA er í velferðarnefnd. Það er mjög mikilvægt að þau lög verði samþykkt á þessu þingi vegna þess að ég hef vaxandi áhyggjur af því að það geti farið að koma upp einhver mál þar sem ætlunin er að girða fyrir þessa nýju löggjöf vegna þess að við höfum verið að fjölga samningum í raun á bráðabirgðaákvæði sem ég held að sé í besta falli óheppilegt. Það er ætlunin að halda þar áfram með sama hætti.

Eins varðandi barnaverndarmálin, þar hefur ríkisstjórnin boðað aðgerðir, bæði til skemmri tíma, en ætlunin að koma upp tilraunaverkefni á næstu tveimur vikum, og síðan á að kortleggja úrræði í framhaldinu. Í raun hefur verið boðuð sú vinna að endurskoða barnaverndarlög og alla lagaumgjörð sem snýr að málefnum barna á þessu kjörtímabili. Það er auðvitað ekki eitthvað sem gert er á fjórum mánuðum sem er sá tími síðan þessi ríkisstjórn tók við. Ég segi nú bara ekki meira í þeim efnum, en við þurfum að vanda til þessa og leggja góða vinnu í. Sú vinna er hafin og kortlagning á barnaverndarkerfinu í heild sinni er hafin. Vonir standa til þess að formlegri vinna geti svo farið af stað í framhaldinu. En það skortir ekkert á pólitískan vilja til þess að tryggja úrræði fyrir börn í fíknivanda og öðrum vanda, rétt eins og ég kom inn á minni framsöguræðu.

Ég hef eiginlega ekki tíma, ég ætlaði að koma inn á eitt atriði enn en ég geri það kannski á eftir þegar kemur að næstu spurningu.