148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:38]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði áðan eru ekki nema rétt nokkrir mánuðir síðan ríkisstjórnin tók við. Hún hefur það á stefnuskrá sinni að bæta kjör örorkulífeyrisþega samhliða því að sett verði í gang kerfisbreyting við að innleiða starfsgetumat og nýtt endurhæfingarkerfi. Það veit hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem fór fyrir vinnu á þarsíðasta kjörtímabili sem sneri að því að bæta kjör eldri borgara, að að mörgu er að huga í því sambandi þegar innleitt er nýtt kerfi og ný hugsun. Og mikilvægt er að þar komi sem flestir að málum. Ég hef lagt áherslu á það í samráði við Öryrkjabandalagið að pólitíkin, stjórnmálin, komi að því. Ég hvet hv. þingmann til að þrýsta á sinn flokk og félaga sína í stjórnarandstöðunni að skipa fulltrúa í þessa vinnu þannig að hún geti hafist sem fyrst, vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að slík vinna fari af stað. Það er gríðarlega mikilvægt að við getum hafið hana sem fyrst vegna þess, og ég tek undir með hv. þingmanni, að mikilvægt er að kjör þessa hóps verði bætt.

Þegar þeirri vinnu verður lokið mun endanlega koma í ljós með hvaða hætti ríkisvaldið og fjármálavaldið þarf að koma að. Ekki er hægt að segja nákvæmlega á þessari stundu hvernig niðurstaðan verður úr því. Það þarf samtal og það þarf samvinnu til að fá það fram. Þar verður m.a. farið yfir krónu á móti krónu skerðingu. Farið verður yfir fleiri þætti sem snúa að almannatryggingakerfinu þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Það er einbeittur vilji þessarar ríkisstjórnar að innleiða þessa nýju hugsun. Ég er sannfærður um að samhliða því sem hún verður innleidd þá tekst okkur að bæta kjör þessara hópa (Forseti hringir.) og það verður ekki ávísun á fátækt eða eymd.