148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er þörf á pólitískri umræðu um það hvernig við viljum þróa þessi kerfi. Við hv. þingmaður höfum áður rætt þessi mál í þessum sal.

Bara svo ég fari aðeins yfir stöðuna í barnabótum hækka útgreiddar barnabætur frá fjárlögum síðasta árs. Fjárheimild síðasta árs var 10,5 milljarðar kr. en aðeins 9,6 milljarðar voru greiddir út. Í fjárlögum yfirstandandi árs, 2018, hafa bæturnar verið hækkaðar þannig að tryggt verði að fjárheimildin sé nýtt að fullu, þ.e. 10,5 milljarðar kr. Það gerir 10% hækkun á barnabótum. Að baki liggur 7% hækkun á tekjuviðmiðunarmörkum og 8,5% hækkun á bótafjárhæðum. Tekjuskerðingarhlutföllin haldast óbreytt, ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram í umræðum í þessum sal.

Þegar kemur hins vegar að því að skoða hvert eigi að stefna með barnabótakerfið liggur fyrir að við boðum að við viljum eiga samráð við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega verkalýðshreyfinguna sem hefur látið sig þessi mál varða, um það hvernig við viljum þróa þetta kerfi. Eins og hv. þingmaður nefnir má spyrja: Eiga bæturnar einfaldlega að fylgja barni, óháð tekjum foreldra, eða á að hafa einhvers konar tekjuskerðingu inni í kerfinu þannig að það nýtist betur fólki með lægri tekjur og lægri millitekjur?

Ég held að það sé mikilvægt að kalla eftir sjónarmiðum, ekki síst verkalýðshreyfingarinnar. Þar hefur verið talað sérstaklega fyrir því að tekjulægri hópar njóti aukins stuðnings í gegnum skattkerfin og bótakerfin. Hv. þingmaður talar um hvernig auka eigi jöfnuð. Við gerum það ekki síst í gegnum þessi kerfi. Þess vegna boðum við endurskoðun á tekjuskattskerfinu, gerum ráð fyrir skattalækkun sem samsvarar 1% lækkun á tekjuskattsprósentustiginu, en í texta fjármálaáætlunar kemur líka fram að útfærslan á þessari lækkun er í raun og veru óútfærð. Viljum við gera það til að mynda með því að endurskoða persónuafsláttinn og gera hann þrepaskiptan að einhverju leyti eða þannig að hann breytist og nýtist best hinum tekjulægri? Það er opið fyrir mér að skoða slíkar leiðir. Aðalmarkmiðið á að vera, eins og hv. þingmaður sagði, að tryggja (Forseti hringir.) aukinn jöfnuð í gegnum skatta- og bótakerfið.