148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[12:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þeim orðum hv. þingmanns að þingið hyggist veita ríkisstjórninni aðhald. Það er auðvitað mjög mikilvægt og hluti af því sem ég er nú alltaf að tala um að þingið setji sér líka sín eigin mörk í því hvernig það vill haga sínum störfum. Það er mikilvægasta hlutverk þingsins, eða eitt af þeim, að veita þetta aðhald.

Hv. þingmaður vísar til bankaskattsins. Ég hef nokkrum sinnum farið yfir hann í minni ræðu og minni á það enn og aftur að þessi skattur var boðaður af þáverandi ríkisstjórn 2013–2016 sem tímabundin aðgerð til að fjármagna tiltekna aðgerð. Við erum að taka miklar eignatekjur út úr fjármálakerfinu til að nýta fyrir almenning í þessu landi. Horfum bara á samgöngumálin svo dæmi sé tekið. Síðan mun á næstunni koma fram hvítbók um fjármálakerfið sem ég þykist vita að hv. þingmaður muni hafa mikið að segja um. Við þurfum að skapa hér samtal og umræðu um hvert við viljum stefna með fjármálakerfið. Þar duga ekki til bara þær Evrópureglugerðir sem við höfum þegar innleitt sem hafa margar hverjar verið til mikilla bóta fyrir íslenskt fjármálakerfi að mínu viti. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa til þess líka að skoða það sem út af stendur eftir þau ár sem eru liðin frá hruni og allar þær breytingar sem hafa verið gerðar. (Forseti hringir.) Hvernig viljum við þróa fjármálakerfið hér á Íslandi?