148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að kalla eftir meiri fjármunum inn í kerfið. Mig langar meira í fyrri umferð að ræða aðeins um hvernig verið er að nýta þá fjármuni sem fyrir eru í kerfinu og fá kannski síðan aðeins nánari útskýringu á því hvaða fjármunir það raunverulega eru sem verið er að bæta inn í kerfið.

Eitt af því sem er margendurtekið í áætluninni, og það er góð vísa, er að ein af stærstu áskorunum er að vinna við stefnumótun innan heilbrigðisþjónustunnar til að bæta skilvirkni, nýtingu mannafla og sérfræðiþekkingar, auka samvinnu og skýra verkaskiptingu. Eitt af því sem er þarft og mikilvægt inn í svona vinnu er að upplýsingar um núverandi stöðu, ekki síst raunverulega nýtingu þeirra fjármuna sem fyrir eru í kerfinu, liggi fyrir.

Mig langar því í fyrri umferð að spyrja hvort hæstv. ráðherra líði vel með þá yfirsýn sem hún hefur um nýtingu fjármuna núna, svo vel að hún sé sátt við að fara með peningana inn í kerfið áður en þessi stefnumótun liggur fyrir.

En verið er að bæta í kerfið, gott og vel, en hvaða fjármunum? Í miðopnu Morgunblaðsins í gær var grein eftir hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins, Óla Björn Kárason, þar sem hann talaði um að á næstu fimm árum væri verið að bæta inn í kerfið 56 milljörðum. Vinstra megin í miðopnunni, það er nú svolítil pólitík í því, var grein frá hæstv. ráðherra þar sem hún talar um að inn í kerfið sé verið að bæta 79 milljörðum.

Ég geri mér alveg grein fyrir að þessir tveir ágætu stjórnmálamenn vita væntanlega hvað þeir eru að tala um. En fyrir okkur hin væri ágætt ef stjórnarliðar kæmu sér saman um fjárhæðirnar þó að við séum að kýta við stjórnarandstöðuna. Það væri eiginlega hægt að segja, vegna þess að yfirskriftin hjá Sjálfstæðisþingmanninum er að útgjaldaboginn sé spenntur til hins ýtrasta, það er hérna hægra megin, en þegar litið er til vinstri mætti jafnvel segja að hann væri slitinn ef sú fjárhæð verður raunin sem hæstv. ráðherra talar um, 79 milljarðar.

Til viðbótar við raunverulega nýtingu núverandi fjármagns langar mig að fá að heyra hvaða peninga við erum að tala um inn í þessa áætlun.