148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Í umræðunum undir þessum lið í dag hefur aðeins komið fram sú yfirlýsing sem við undirrituðum sameiginlega, sem var viðauki við kjarasamning við BHM, þ.e. ég, fjármálaráðherra og forsætisráðherra, þar sem vikið er sérstaklega að starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstétta. Af hverju var þessi yfirlýsing sett fram? Það er jú vegna þess hversu aðkallandi málið er á svo margan hátt.

Ég taldi á þeim tíma og tel enn afar mikilvægt að tryggja breiða pólitísku aðkomu að málinu. Auðvitað fagna ég sérstaklega áhuga hv. þingmanns og Pírata almennt á heilbrigðisþjónustu og heilbrigðiskerfinu og hef fundið fyrir að eiga þar liðsmenn.

En af því að hv. þingmaður talar líka um aðbúnað og vinnuumhverfi, sem er þrástef sem kemur sífellt upp, þá kom líka upp í yfirlýsingu læknaráðs Landspítalans í gær, sem vék að þessum ytri þáttum, ferðamönnum og fjölgun aldraðra, að það er ekki síður staðan sem varðar aðbúnaðinn og húsnæðið sem þarf að laga. (Forseti hringir.) Þess vegna er svo mikilvægt að hefja bygginguna við Hringbraut.