148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[13:53]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst að því sem hv. þingmaður spurði um í lokin og lýtur að tannlækningum öryrkja og aldraðra. Ég var í þessari eða síðustu viku að fá niðurstöður starfshóps tannlækna, öryrkja og aldraðra, sem voru að leggja til með hvaða hætti við ættum að ráðstafa 500 milljónum, sem eru eyrnamerktar á þessu ári, til að koma til móts við tannlæknakostnað þessara hópa. Og síðan milljarður á ári eftir það. Ég velti fyrir mér hvort sú upphæð dugi. Hún er nálægt því, sennilega aðeins vanmetin. En hins vegar er niðurstaðan komin til mín. Næsta skref hjá mér er að setja Sjúkratryggingar Íslands í gang við að semja við tannlækna á grundvelli þess þannig að við drögum úr kostnaðarþátttöku þessara hópa og þessar 500 milljónir rati til öryrkja og aldraðra sem geta þá notið tannheilbrigðisþjónustu í ríkari mæli en verið hefur.

Hv. þingmaður spyr líka um ferðakostnað öryrkja og aldraðra utan af landi. Nú er það þannig í þessari fjármálaáætlun að teknar hafa verið frá ákveðnar upphæðir á tímabili fjármálaáætlunarinnar til að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga almennt. Ég hef beðið um það í ráðuneytinu að fá mismunandi tillögur eða sviðsmyndir af því hvernig best sé að gera þetta. Hvað er það sem við viljum helst draga úr kostnaði við? Eitt af því er einfaldlega að lækka þakið á læknaþjónustu og lyf. Hitt er að sameina þetta undir eitt þak. Svo hefur auðvitað heilmikið verið talað um ferðakostnað. Það er eitt af því sem mér finnst að við þurfum að skoða. En partur af þessu, líka fyrir öryrkja og aldraða sem búa úti á landi, er að við skilgreinum betur hvers konar sérfræðiþjónusta á að vera fyrir hendi úti á landi, hvaða sérfræðilæknar eiga að vera þar aðgengilegir sem hluti af aðgengilegu heilbrigðiskerfi fyrir þann hóp rétt eins og aðra.