148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir innlegg hans í dag þótt vissulega sé trauðla hægt að fara ígrundað ofan í öll útgjöld málasviðs hans til næstu fimm ára á svona stuttum tíma eins og okkur er gefinn hér.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar koma fram áherslur í samgöngu- og umhverfismálum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verði náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda …“

Þá segjast stjórnarflokkarnir ætla að meta allar stærri áætlanir úr frá loftslagsmarkmiðum. Loks má sjá í stjórnarsáttmálanum að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar horft er á þennan stjórnarsáttmála sem kynntur var í desember síðastliðnum eða fyrir réttum fjórum mánuðum vekur furðu að í kaflanum um samgöngur í fjármálaáætlun, sem er jú stefnuplagg ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum næstu fimm árin, er ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarfjármunum í almenningssamgöngur. Eingöngu er minnst einu sinni á hið gríðarmikilvæga verkefni borgarlínu með þeim orðum að vilji sé til að eiga samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu og aðrar framkvæmdir á svæðinu. Og hlustið nú vel: „… verður ráðist í viðræður á árinu um það.“

Viðræður eru það núna sem fyrir fjórum mánuðum hét: að styðja verði við.

Að efla almenningssamgöngur um allt land er algert grundvallaratriði ef draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er stærsta áskorun hverrar ríkisstjórnar. Þar sem ekkert er um almenningssamgöngur rætt að öðru leyti í fjármálaáætlun spyr ég (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Er stjórnarsáttmálinn kannski fallinn úr gildi?