148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[15:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að verkefnin eru sannarlega brýn, bæði hvað varðar uppbyggingu vegakerfisins en líka hvernig við tökumst á við markmið okkar í loftslagsmálum sem er nauðsynlegt að við náum. Þar eru almenningssamgöngur mjög sterkur hluti af því innleggi. Hvað erum við að gera í dag? Ætli við séum ekki með um 2 milljarða í kringum flugið sem við erum að nýta til að tryggja að flug geti verið almenningssamgöngur. Við erum með hugmyndir uppi um að auka stuðninginn þar, eins og ég kom inn á í máli mínu. Rætt hefur verið um hina skosku leið sem ég veit að margir þingmenn þekkja. Í landshlutasamtökunum eða í þeim hluta almenningssamgangnanna sem lýtur að stuðningi við almenningssamgöngur á vegum, erum við sennilega í dag með um 1,2 milljarða. Í dag í þessum ramma eru yfir 3 milljarðar sem fara til almenningssamgangna. Ég er að lýsa hér vilja mínum til þess að taka skrefið lengra. Enda segir bæði fjármálaáætlunin og samstarf okkar við ríkisstjórnarborðið okkur það í sáttmála okkar að við ætlum að gera það. Það er með þeim hætti sem við erum að vinna.

Í samgönguáætlun erum við einmitt að vinna að því hvernig við t.d. getum samþætt almenningssamgöngurnar og horfum þá til þeirra landa sem hafa kannski gert það hvað best, eins og t.d. Finna sem með nýjum lögum hafa gengið mjög langt í að samþætta þennan möguleika, að menn geti farið í eina tegund almenningssamgangna, hvort sem er í flugi eða ferju, og farið svo beint inn í strætóinn í framhaldinu. Það er á þann hátt sem við þurfum að hugsa þetta kerfi upp á nýtt þannig að það nýtist fólki til að komast frá stað A til B þó að það þurfi að fara á milli kerfa. Að þessu er unnið mjög skilmerkilega. Þessi fjármálaáætlun styður okkur til þess.