148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn. Við höfum ekki rætt þetta mál hérna í dag. Það er mjög mikilvægt að við tölum einnig um þetta mjög svo mikilvæga svið.

Ég verð að segja alveg eins og er að ef einhver veikleiki er í þessari fjármálaáætlun gagnvart mínum málaflokkum þá hann sá að ekki er nægilega vel tekið á netöryggismálum eða póstmálum í þessari fjármálaáætlun. Þar eru fyrirhuguð frumvörp sem koma væntanlega inn í næsta vetur og verða samþykkt síðar. Þau munu kosta fjármuni. Í næstu fjármálaáætlun verðum við að taka á þessu og fari það í gegnum þingið og þingið samþykkir þær leiðir sem þar eru farnar mun það væntanlega líka samþykkja þau fjármál sem fara þar með inn í ramma ráðuneytisins.

Ég þekki ekki nákvæmlega þá tillögu sem hv. þingmaður vísaði til frá Norðurlandaráðsþinginu en ég þarf að kynna mér hana sem samstarfsráðherra Norðurlanda. Við höfum átt annars vegar í mjög góðu sambandi og samtali við Norðurlöndin um þessi mál. Við höfum verið í góðum samskiptum við Norðmenn en við höfum einnig leitað sérstaklega eftir ráðgjöf frá Bretlandi, frá Oxford, og erum með margar ábendingar þaðan. Ég vil því alls ekki segja að við séum í tossabekk hvað þessi mál varðar.

Það væri nú eiginlega fráleitt af mér að segja það eftir að hafa tekið við verðlaunum frá aðalritara Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar í gær fyrir að vera í fyrsta sæti af öllum löndum í fjarskiptum. Við fórum fram úr Suður-Kóreu. Netöryggi er einn af þeim hlutum sem þar eru inni og þess vegna skiptir máli fyrir okkur að taka almennilega á þeim málum er varða netöryggi til þess að viðhalda því sæti. Ég er sammála hv. þingmanni um það og þakka honum fyrir að vekja máls á því í þessari umræðu.