148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[16:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir þessar spurningar. Þó að ég sé ekki tilbúinn að samþykkja að við séum í tossabekk í fjarskiptum get ég alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við séum í tossabekk hvað varðar vegamálin eins og þau líta út í dag.

Það er alveg rétt, og ég kom aðeins inn á áðan, að við erum nefnilega ekki eingöngu í því að bregðast við umferðarþunga, að tvöfalda vegi og gera þokkalega vegi að góðum vegum og öruggum, heldur erum við enn að byggja upp nýja vegi og grunnþjónustu til þess að stuðla að öflugri byggðum og til að atvinnufyrirtækin okkar víða um land komi vörunum sínum á markað. Þess vegna er verkefnið svona stórt.

Ég hef ekki talað um 200 milljarða verkefni. Ég hef sagt að það væri u.þ.b. 200 milljarða þörf á næstu árum. Hvenær við getum farið í það, hvort það eru fimm eða sjö ár eða eitthvað slíkt, þá munu þó 124 milljarðar fara í þennan málaflokk, þ.e. samgöngur og fjarskipti og langmest í samgöngurnar á næstu fimm árum, svo það sé nú sagt. Á síðastliðnum 20 árum eru bara tvö ár, 2008 og 2009, þar sem farið hefur verið fram úr þeim framlögum sem eru áætluð næstu þrjú árin. Þannig að ég tel sannarlega að við getum staðið undir því að við séum að hraða uppbyggingunni og fara í stórátak en ég tel líka að það þurfi meira til.

Það þarf meira til en þann afrakstur sem er af mjög góðu búi ríkissjóðs sem gerir það að verkum að við getum gert þetta. Við erum að fara að taka fjármuni úr fjármálakerfinu með þessum 5,5 milljörðum til viðbótar á næstu þremur árum, sem mjög margir flokkar lofuðu fyrir kosningar og við töluðum um í stjórnarsáttmálanum að við ætluðum að gera.