148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég býst við að hv. þm. Karl Gauti Hjaltason hafi verið að grínast með fjórða árþúsundið. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það gæti verið áhugaverðara að setja fram metnaðarfyllri markmið um að fækka einbreiðum brúm á hringveginum og reyndar einbreiðum brúm út um allt og ég veit að í vinnu samgönguráðs hafa slíkar hugmyndir verið ræddar.

Verkefnið er hins vegar býsna stórt. Ef ég man rétt þá eru 750 einbreiðar brýr í kerfinu okkar. Þær eru hins vegar fjölmargar á hringveginum og allar mjög hættulegar, auðvitað mishættulegar en allar eru þær hættulegar. Síðan eru margir vegir reknir með þeim hætti að það er eins og um stofnveginn á hringveginum sé að ræða.

Ég kannast ekki við að gjaldtaka hafi verið bannorð og ég hef rætt hana opinskátt allan tímann. Ég man heldur ekki til þess að flokkur hv. þingmanns hafi lagt sig eftir því að styðja hugmyndir þáverandi samgönguráðherra í kosningabaráttunni. En ég heyri það í dag að fleiri þingmenn eru tilbúnir að horfa á einhvers konar gjaldtöku. Ég skil vel að menn vilji ræða útfærsluna, hvernig það muni snúa að jafnræði þegnanna o.s.frv. Og ég er til í þá umræðu.