148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:27]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna tilsvarið. Það skortir hvorki sýn né pólitíska stefnumótun í þessum málaflokki. Í þessari fjármálaáætlun eru lagðar fram mjög skýrar línur um þá uppbyggingu sem við sjáum fyrir okkur með aukningu þar og sérstaklega er lögð áhersla á næstu þrjú árin. Ég hef satt best að segja orðið var við umtalsverðan hljómgrunn meðal þingmanna í dag sem styðja við þessar hugmyndir, annars vegar að það sé jákvætt að sjá þessa aukningu, en jafnframt að allir eru sammála um að það þurfi meira til og það sé ekki útilokað að leita annarra leiða. Menn geta alveg náð pólitískri samstöðu um það, en það gera menn auðvitað ekki með einhverjum pólitískum leikjum og stórum yfirlýsingum um að hér sé fólk að byggja einhverjar skýjaborgir og allar stefnur séu hjómið eitt. Það gera menn ekki, en menn geta náð (Forseti hringir.) pólitískri samstöðu með því að leggja spilin á borðið og verið svolítið sammála um að byggja upp það sem þarf að byggja upp. Það þarf að gerast (Forseti hringir.) í samgöngumálum.