148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vona sannarlega að árangur náist með þessum aðgerðum sem hæstv. ráðherra boðar, þótt ég leyfi mér að draga það í efa, en hún á stuðning minn allan í þessum málum.

Í fjármálaáætluninni er fjallað um fækkun nemenda á framhaldsskólastigi sem hefur mest orðið undanfarið í fámennum skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Talað er um að þessu fylgi erfiðleikar við að halda úti nógu fjölbreyttu námi, erfiðara sé fyrir sérmenntaða kennara að fá fulla kennslu og það geti orðið erfiðara að uppfylla faglega kröfur um stoðþjónustu og stjórnsýslu í skólunum. Rannsóknir á gengi nemenda í íslenskum framhaldsskólum sýna að aðgengi að námi skiptir miklu máli fyrir menntunarstig þjóðarinnar og það má gera ráð fyrir því að ef alvara er í því að auka menntunarstigið þá verði að bæta aðgengið, frekar en að gera það erfiðara fyrir ungmenni að stunda nám í framhaldsskólum.

Hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra að gera til halda fámennari skólum starfandi úti um landið og sjá þannig til þess að aðgengi að námi á landsbyggðinni versni ekki meira en orðið er?