148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:54]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin og ræðum nú sérstaklega þætti sem snúa að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það eru auðvitað nokkur atriði á hennar sviði sem ég hef áhuga á. Málefnasvið ráðuneytisins eru allnokkur; safnamál, menningarstofnanir, íþrótta- og æskulýðsmál, auk menntakerfisins, framhaldsskólar og upp í háskólana, auk stjórnsýslu ráðherrans.

Fyrst vil ég nefna sérstaka ánægju mína með það að boðuð er tillaga til þingsályktunar um stöðu íslenskrar tungu og vil brýna hæstv. ráðherra að standa stöðugan vörð um íslenskuna. Það er fátt mikilvægara fyrir sjálfstæði okkar sem þjóðar.

Ég ætla að snúa mér að málefnum menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála, koma með eina spurningu um það. Undir þessum lið, nr. 18 í tillögunni, er gert ráð fyrir nokkurri lækkun á næstu fimm árum eða úr 14 milljörðum á næsta ári, 2019, í 13,5 milljarða árið 2023. Ég spyr því hæstv. menntamálaráðherra: Hvar á helst að bera niður í þessum áætlaða niðurskurði?

Í öðru lagi ætla ég að benda á að í tillögunni er rætt um að bæta aðgengi að menningu og listum til að fleiri landsmenn geti notið þeirra. Þarna vil ég taka undir hvert orð og hvetja hæstv. ráðherra til dáða. Víða um landið njóta íbúar lítils af ýmissi menningarstarfsemi sem á sér yfirleitt stað á höfuðborgarsvæðinu á kostnað allra skattborgara þessa lands, þótt þeir vissulega geti séð það í sjónvarpi eða hlustað á í útvarpi ef svo ber undir. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún geti útskýrt betur fyrir mér hvað felst í þessu markmiði um betra aðgengi allra að menningu og listum í tillögunni.