148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ef þingmanninum hefur misheyrst varðandi vanda sauðfjárbænda, um að hann væri ærinn, ítreka ég það hér. Með sama hætti, þegar hún ræðir fiskeldið, er ég sannfærður um að því vaxi fiskur um hrygg eins og segir í stjórnarsáttmálanum. Hvort tveggja höfðar til þeirra atvinnugreina sem undir eru í umræðunni hvoru sinni.

Það er rétt að áform eru uppi um að þróa mismunandi eldisaðferðir. Eitt af því sem ég bind vonir við er að vísindum, tækni og rannsóknum fleygi fram í þá veru að við getum farið að færa okkur meira út í það að ala ófrjóan lax, þ.e. geldlaxinn. Við eigum sömuleiðis að leggja áherslu á að færa okkur sem mest við getum yfir í lokaðar eldiskvíar eða eldiskerfi. Um leið og ég segi þetta geri ég mér fyllilega grein fyrir því að þessar nýjungar eru skammt á veg komnar og eru ekki á þeim stað að við getum bundið vonir við að fiskeldið vaxi með þeim hraða sem væntingar standa til, sérstaklega fyrir vestan og austan.

Það er spurt um álit mitt á þjóðhagslegum áhrifum af þessu. Þau eru gríðarlega mikil. Nú þegar, við 20.000 tonna eldi, eru komin að mati þeirra sem til þekkja 580 ársverk. Ef við horfum upp á 70.000 tonna eldi, sem er álit Hafrannsóknastofnunar að geti orðið, segir sig sjálft að af þessu verða gríðarleg áhrif á svæði sem hingað til hafa verið mjög veik og þurfa töluverðan stuðning ef byggðin á ekki að líða frekar. Við eigum að sjálfsögðu að taka undir með þessum byggðum en að minni hyggju eigum við aldrei, ekki frekar en stjórnarsáttmálinn kveður á um, (Forseti hringir.) að hvika frá þeim markmiðum sem sett eru fram um vernd villtra laxastofna.