148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þegar við tökumst á við þá spurningu sem hún varpaði hér upp, sem er um það hvaða tilraunir við ætlum að gera til að ná sátt um þennan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar, þá leyfi ég mér að fullyrða að margt hefur breyst í umræðu og afstöðu almennings í þessu landi, bæði stjórnmálaflokka, fyrirtækja, hagsmunasamtaka, til fiskveiði- eða sjávarútvegsmála. Ég leyfi mér að fullyrða að heilt yfir er mjög góð sátt um stjórnkerfi fiskveiða, þ.e. með hvaða hætti við stýrum auðlindanýtingunni.

Þær deilur sem voru uppi fyrir ekkert mjög mörgum árum, þegar þessu kerfi var komið á, heyrast ekkert lengur. Ég held að það sé bara ein og ein hjáróma rödd sem talar í dag um þetta grundvallaratriði sem nýst hefur þjóðinni mjög vel til að byggja upp stofna sína og hafa af því arðbæran atvinnurekstur sem nýtur ekki lengur niðurgreiðslu eða ríkisstyrkja, það er 95% sátt um það að stjórnkerfið er mjög gott. Það getur vel verið að það sé eitthvert metnaðarleysi að takast þá ekki á við það að breyta því í grundvallaratriðum, ég er ekki sammála því. Ég held að kerfið hafi reynst okkur mjög vel.

Mér sjálfum líður þannig að það eina sem standi út af sé gjaldtakan. Við erum enn að takast á um þá fjárhæð hvað sé sanngjörn gjaldtaka af þessari atvinnugrein. Þar verða skoðanir alltaf skiptar. Ég vil hæla fyrrverandi ráðherra fyrir það verk sem þó var lagt í þar, sem snýr að þeirri skýrslu sem ég hef vitnað hér til þar (Forseti hringir.) sem gerð var úttekt á gjaldtöku í sjávarútvegi og afkomu hans, skýrslu Deloitte. Hún var kynnt fyrir ekkert mjög (Forseti hringir.) löngu og þar eru leiddar fram ákveðnar staðreyndir sem menn verða að horfast í augu við.