148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir embættismönnum ráðuneytanna þá eru þeir jafn misjafnir og þeir eru margir, en þeir taka ekki ákvarðanir fyrir stjórnmálamenn. Það er ekki þannig. Þingið setur lögin og tekur ákvarðanir í þessum efnum. Það er ekki neitt vald í ráðuneytunum hjá embættismönnum þar til að taka slíkar ákvarðanir. (Gripið fram í.)Það er langur vegur frá að þeir geri það.

Ekki hefur náðst samstaða um það, eins og ég nefndi hér í samtali mínu við fulltrúa Samfylkingarinnar, sem hefur það á stefnuskrá sinni að bjóða upp veiðiheimildir, að bjóða þær upp. Ég lýsti skoðun minni í þeim efnum mjög rækilega, eins og hægt er í stuttu andsvari, og tek ekki undir þá hugmynd, m.a. af þeirri ástæðu að ég held að það muni enn auka á ósættið um kerfið.

Þegar við ræðum um gjaldtökuna, eins og hér er gert, undir þeim formerkjum að hún eigi að vera réttlát og sanngjörn, þá er það rétt, sem hv. þingmaður bendir á, að þau hugtök í þessari umræðu eru með ákveðnum hætti afstæð; það fer töluvert eftir því hvaða skilning við hvert og eitt leggjum í hugtökin sanngirni og réttlæti. Það getur verið misjafnt. Við verðum að virða skoðanir hvert annars í þeim efnum; það sem einum kann að þykja sanngjarnt er í huga annarra gríðarleg ósanngirni. Þá er leiðin sú að reyna að finna málamiðlun milli þeirra ólíku sjónarmiða.