148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil nú ekki valda hæstv. ráðherra vonbrigðum, en ég var ekki að hrósa honum fyrir góða ræðu, heldur einfaldlega þakka honum fyrir að hafa farið yfir sviðið með okkur. Þetta eru hans málaflokkar. Ég var svona fyrir kurteisissakir að þakka honum fyrir að hafa kynnt þetta, en um leið lýsa því yfir að innihald kynningar hans ollu mér vonbrigðum.

Það vekur athygli mína einnig að þrátt fyrir ábendingar í fjármálaáætlunarumræðu síðasta árs um stöðu Matvælastofnunar og augljóst hlutverk hennar við að vinna að markmiðum og aðgerðum þessa málaflokks þá er hún varla nefnd á nafn. Sömuleiðis þegar horft er á framlög til málaflokksins í heild þá er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir að brugðist sé við fjárþörf og þörf fyrir aukinn mannafla til að stofnunin geti staðið undir þeim mikilvægu verkefnum sem hún á að sinna.

Ég spyr því hæstv. ráðherra um málefni allra þessara stofnana hans, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Matís og allra þessara stofnana: Verða (Forseti hringir.) auknar fjárveitingar til þeirra? Þess sjást engin merki í þessari fjármálaáætlun.