148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum náttúrlega eins og komið hefur fram að auka gríðarlega framlögin til þróunarsamvinnu. Ég held að það sé eitthvað sem ekki bara hv. utanríkismálanefnd heldur þingið allt ætti að ræða sérstaklega. Við munum auðvitað koma fram með nýja áætlun sem verður kynnt bæði í þróunarsamvinnunefnd og utanríkismálanefnd og þinginu þar sem við getum akkúrat rætt þessa hluti sem hv. þingmaður var að vísa til og var með ágætis ábendingar hvað það varðar.

Varðandi framboðið í UNESCO þá eru þau samtök afskaplega virt alþjóðleg samtök þar sem við höfum átt fulltrúa áður. Það er komið að okkur að bjóða fram, þ.e. þetta hefur skipst á milli Norðurlandanna. Það er enginn vafi á því að það er ávinningur fyrir okkur að taka þátt í því starfi og við höfum notið góðs af því. Hvernig við mælum það nákvæmlega getur verið snúið, en það er líka ákvörðun að bjóða ekki fram, því að það er komið að okkur þegar kemur að Norðurlöndunum, það róterar á milli landa. (Forseti hringir.) Það þarf kannski meira en mínútu til að fara yfir þau mál. Okkur gefst vonandi tækifæri til þess.