148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nú tekið með mér ranga ræðu, afsakið.(Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að hafa með mér réttu ræðuna.

(Forseti (SJS): Forseti mælir með því.)

Ég vil byrja á því að segja að dómsmálaráðherra er erlendis, hafði ekki tök á því að sitja þingfund í dag vegna skuldbindinga erlendis og ég mun því fyrir hönd ráðherrans gera grein fyrir þeim málefnum sem eru á ábyrgðarsviði dómsmálaráðuneytisins í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023, sem ég þekki svo sem ágætlega eftir þá miklu vinnu sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur og mánuði við að setja áætlunina saman í fjármálaráðuneytinu.

Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á málefnasviðum sem eru réttindi einstaklinga, trúmál, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins, dómstólar og almanna- og réttaröryggi, en þessi tvö síðastnefndu heyra að litlum hluta undir forsætisráðuneytið. Stefnt er að því að verja samtals 213 milljörðum kr. á áætlunartímabilinu til þessara málaflokka, en það er aukning um tæpa 16,4 milljarða á föstu verðlagi fjárlaga ársins 2018, eða 5,5% af ramma fjármálaáætlunarinnar.

Aukning frá fjárlögum 2018 og til ramma fjármálaáætlunar 2019 fyrir umrædd þrjú svið nemur um 3,4 milljörðum kr., eða um 8%. Hækkun á milli fjárlaga 2018 og ramma fjármálaáætlunar árið 2023, síðasta ár áætlunartímans, er um 7,8%. Þessi aukning verður nýtt til þess að styrkja enn frekar grunnstoðir ríkisins. Heildargjöld málefnasviðsins almanna- og réttaröryggi aukast um 18,2 milljarða kr. á tímabilinu. Þar vega þyngst kaup á þremur nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, en á tímabilinu verður samtals 14 milljörðum kr. varið til kaupanna. Framlög til að uppfylla kröfur um öflugra og virkara landamæraeftirlit á Schengen-landamærunum eru aukin um 3,5 milljarða kr. á tímabilinu. Þá verða rúmlega 7,5 milljarðar kr. veittir í eflingu löggæslu, landhelgisgæslu og fangelsismál á tímabilinu, en útfærsla á frekari ráðstöfun þess verður mótuð í fjárlögum næsta árs. Hér er verið að leggja áherslu á meðferð ofbeldisbrota hjá lögreglu, skipulagða brotastarfsemi og almenna löggæslu í samræmi við fjölgun ferðamanna.

Ég vil líka láta þess getið að framlög til að styrkja aðgerðir gegn peningaþvætti eru aukin töluvert og gildir það út allt tímabilið. Þau eru aukin um 91 milljón á milli 2018 og 2019. Það verður sömuleiðis gerð aðhaldskrafa á þessu sviði.

Ef við snúum okkur aftur að heildargjöldum málefnasviðsins réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla, þá lækka þau á áætlunartímabilinu um tæpa 2 milljarða kr. Þar munar mest um að uppsöfnuð áhrif aðhaldskrafna fela í sér um milljarðs kr. lækkun framlaga til málefnasviðsins í lok áætlunartímabilsins.

Það verður hins vegar lögð áhersla á styrkingu á starfsemi Persónuverndar í fjármálaáætluninni, en með gildistöku nýrrar reglugerðar verða verulegar breytingar á starfsemi og hlutverki stofnunarinnar. Hér koma einnig við sögu margir flokkar eins og lögbundin útgjöld til kosninga og sanngirnisbóta.

Ég ætla þá að minnast í lokin á samninga við þjóðkirkjuna um fjárhagsleg samskipti, en þeir eru ófrágengnir, en vinna er þó hafin við að ljúka endurskoðun á fjárhagslegu sambandi ríkis og kirkju.

Framlög til sýslumannsembætta lækka á áætlunartímabilinu frá gildandi fjárlögum 2018 þegar við höfum tekið mið af aðhaldskröfunum. Þau þarf að útfæra eftir vandlega athugun.

Heildargjöld málefnasviðsins dómstólar aukast hins vegar á áætlunartímabilinu um 60 millj. kr. (Forseti hringir.) Nýtt dómstig hefur tekið til starfa eins og menn þekkja hér. Það eru fjölmörg verkefni fram undan á (Forseti hringir.) dómstólasviðinu eins og endurnýjun á málaskrá héraðsdómstóla, framþróun á málaskrá Landsréttar og endurnýjun á upplýsingakerfum og annað þess háttar.

Ég ætla að láta það verða mín lokaorð að það er ekki gerð aðhaldskrafa til dómstólanna, sem er hugsað til þess að styrkja rekstrargrundvöll þeirra.