148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í málefnasviði 10 í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er að finna mjög ólíka málaflokka. Málefnasviðið er sagt ná yfir starfsemi stjórnvalda sem miðar með einum eða öðrum hætti að því að veita einstaklingum þjónustu og tryggja grundvallarréttindi þeirra. Þarna eru persónuvernd, trúmál, sýslumenn, stjórnsýsla dómsmálaráðuneytis og útlendingamál. Útgjöld sviðsins dragast saman á næstu fimm árum. En hvað þýðir það, hæstv. staðgengill dómsmálaráðherra? Mér eru málefni eldri borgara hér á landi sérstaklega hugleikin vegna starfa minna við málaflokkinn undanfarinn áratug. Þar hef ég orðið vör við afar slakt þjónustustig og viðhorf hæstv. dómsmálaráðherra, sem því miður gat ekki verið með okkur hér í kvöld, til þessara skjólstæðinga sinna sem gefur mér ekkert sérstakt tilefni til bjartsýni.

Þjónustustofnun við erlenda borgara sem hingað leita hefur frekar verið rekin eins og lögregluríki en þjónustustofnun. Sjá má í umfjöllun um útlendingamál að lítið fer fyrir mannúð, en mun meira er fjallað um skörugleika hæstv. dómsmálaráðherra er ráðist hefur í breytingar á lögum og reglum um útlendinga, þannig að efast má um að mannréttindi þessara einstaklinga séu tryggð. Hreykir dómsmálaráðherra sér sérstaklega af því að hafa náð að hraða brottför þeirra sem sækja að hennar mati að tilhæfulausu um alþjóðlega vernd og að brottvísun geti nú, eftir þessar breytingar ráðherra, falið í sér endurkomubann á Schengen-svæðið.

Minna skal þingheim á það að sérstök vernd fyrir börn var afnumin með reglugerð ráðherra í mars síðastliðnum.

Ég verð því að spyrja hæstv. staðgengil dómsmálaráðherra: Er þessi niðurskurður sem boðaður er í fjármálaáætlun tengdur þeim málaflokki sem ég hef nú fjallað um, eða er það þjóðkirkjan, er það Persónuvernd, eða hið nýendurreista dómsmálaráðuneyti sem mætir niðurskurðarhnífnum?