148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka staðgengli dómsmálaráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, fyrir að vera hér með okkur. Ég vona að ég hafi tekið rétt eftir að ráðherra hæstv. sagði hér áðan að á tímabilinu færu til málaflokks 9, þ.e. dóms- og almanna- og réttaröryggis, 18,2 milljarðar á þessu tilgreinda tímabili, fimm ár. Síðan sundurliðaði ráðherrann: 14 milljarðar í þyrlur, 3,5 í hert landamæraeftirlit og 7,5 milljarður í eflingu löggæslu. Þessar þrjár tölur eru 25 milljarðar en ekki 18,2, þannig ég bið ráðherrann um að segja mér hvort ég hafi tekið rangt eftir, hvort þetta sé einhver misskilningur.

Mig langaði hins vegar að fara yfir það sem talað er um í löggæslukaflanum, að almenn löggæsla um allt land hafi milli 2014 og 2018 verið efld með 15 nýjum stöðugildum sem er, nota bene, þrír sólarhringsmenn á öllu landinu, 15 stöðugildi.

Einnig er talað um, og það er mjög lofsvert, þessar 237 milljónir, sem skiptast niður á öll lögregluembætti, til eflingar lögreglunnar vegna kynferðisafbrota. Það er mjög lofsvert, en það kemur ekkert fram um að ákæruendinn á þessum sömu málum hafi verið styrktur að sama skapi. Mig langar að spyrja aðeins út í það.

Síðan segir hér, og ég er enn að bögglast með þá peningaupphæð sem um er rætt:

„Ráðist verður í átak við nýliðun hjá lögreglunni.“

Nú spyr ég: Fyrir hvaða peninga? Vegna þess að það er ljóst að bara á höfuðborgarsvæðinu vantar 88 lögreglumenn. Samkvæmt aldursgreiningu sem fram kom í svari á Alþingi árið 2016 kemur í ljós að u.þ.b. 20% lögreglumanna muni hætta á þessu tilgreinda tímabili, það eru um 140 manns. Lögregluskólinn er að „framleiða“ 40 nemendur þetta árið og 60 árið eftir það. (Forseti hringir.) Nú spyr ég: Hvaða átak er um nýliðun og hvernig, hæstv. ráðherra?