148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:20]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er með nokkrar spurningar í viðbót. Ég hef áhyggjur af útvörðum framkvæmdarvalds í héraði, þ.e. sýslumönnunum. Þeim hefur fækkað eins og við vitum og eru hreinlega með fjárlögum þessa árs og síðustu ára settir í salt. Ég hef áhyggjur af þessu og held að það sé mjög mikilvægt að halda þessari þjónustu í héraði. Þeir eru bara níu. Borgararnir leita mikið til þessara embætta eftir stuðningi, ráðgjöf og aðstoð. Ég hef áhyggjur af öllum þeim verkefnum sem þarna eru undir. Það má ekki láta þá koðna niður meira en orðið er heldur þarf þarna að gefa örlítið í.

Ég spyr að lokum um löggæslumyndavélar. Það er auðvitað ekki jafnræði í því að sums staðar á landinu sé reiptog á milli sveitarfélaga og lögreglu um hvort eigi að setja upp myndavélar eða ekki út af kostnaðinum. Ég spyr því ráðherra: (Forseti hringir.) Hefur hann hugmyndir eða áætlanir um að koma þarna inn af hálfu lögreglunnar og fjármagna uppsetningu löggæslumyndavéla?