148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Aðeins varðandi vinnubrögð og verklag við fjármálaáætlunina. Ég get einfaldlega sagt dittó við því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan. Fyrr í kvöld var mér reyndar brigslað um að vera reynslulaus. Ég er samt að reyna að horfa aftur í tímann og verð að segja og veit að hæstv. forseti tekur örugglega undir með mér að það er til bóta hvernig við ræðum þetta þótt tíminn sem þingmenn fá skammtaðan sé ekkert mjög mikill. Hvað fáum við á tveimur mínútum? Ég hefði viljað fá þessa viku til að ræða þetta vegna mikilvægis málaflokkanna og af því að við erum að ræða þetta fimm ár fram í tímann. En það gerum við örugglega þá bara á næsta ári og lærum svolítið af þessu því að við þurfum að gefa okkur tíma til að setja okkur inn í málin svo við förum ekki endilega bara sem stjórn/stjórnarandstaða að kasta boltum á milli okkar, verja sitt og sækja á. Ég held að það væri miklu gagnlegra fyrir þingið og þessa umfjöllun, sem í stórum dráttum hefur verið málefnaleg, að læra svolítið af þessari umræðu. En ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra núna að þetta fyrirkomulag er skref í rétta átt, skref í áttina að því að þingið er að reyna að vanda sig. Að því sögðu (Forseti hringir.) — því vil ég fagna. Þakka þér fyrir, hæstv. forseti.